Ásar og óróar á Íslandi

Um okkur

Félag ása á Íslandi var formlega stofnað 25. febrúar 2018 í húsum Samtakanna '78, Suðurgötu 3, 101 Reykjavík. Saga félagsins er þó lengri, en lengi vel var ekkert samfélag ása á Íslandi. Þann 28. júní 2015 var stofnaður Facebook hópur fyrir ása en fáir vissu af honum því hann var lokaður hópur og því ekki hægt að leita að honum. Ástæðan fyrir því var og er að margir í honum eru hreinlega ekki búnir að koma út og er hópnum ætlað að vera öruggur staður fyrir ása og óróa.

Það var svo í maí 2017 að upp spratt umræða á hinseginspjallinu á Facebook hvort ekki væri til eitthver síða eða hópur til að beina ásum á. Í framhaldi af því, 29. maí 2017, tók Gyða Bjarkadóttir sig til og stofnaði Facebook síðuna Asexual á Íslandi á Facebook. Þá fór boltinn að rúlla og fjöldi fólks hafði samband við Gyðu í gegnum þá síðu og fékk aðgang að lokaða hópnum.

Hópurinn óx og ákveðið var að taka þátt í gleðigöngunni 2017 og var það í fyrsta skipti sem ásar gengu saman á Íslandi. Það fékk mikla umfjöllun í blöðum, vefmiðlum, útvarpi og sjónvarpi. Hópnum til mikillar gleði fékk hann hvatningarverðlaun Hinsegindaga það árið. Það var samdóma álit dómnefndar og var talað um að hópurinn hafi verið áberandi, m.a. í fjölmiðlum og hópurinn stóð sig vel við undirbúning og í tilsvörum þar sem við átti. Þetta var svo sparkið í rassinn til að við stofnuðum formlega félagið. Heiti Facebook síðunnar var þá breytt í Ásar á Íslandi og er nú í höndum stjórnar félagsins.

Félagið hefur vaxið jafnt og þétt og fræðsla aukist. Við höfum átt gott samstarf við Samtökin 78 og fengum hagsmunaraðild árið 2019. Við erum ótrúlega stolt að því hvað við höfum komist langt á stuttum tíma en verkinu er ekki lokið. Við verðum að halda áfram að vera sýnileg og stuðla að fræðslu.